Enski boltinn

Umboðsmenn að flækjast fyrir í kaupum Man. City á Nasri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri fær ekkert að spila þessa dagana.
Samir Nasri fær ekkert að spila þessa dagana. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verður enn einhver bið á því að Manchester City gangi frá kaupunum á Frakkanum Samir Nasri frá Arsenal þótt að liðin séu nánast búin að ganga frá öllum málum og að leikmaðurinn sé himinlifandi með samningstilboð City.

Guardian greinir frá því að félögin séu búin að semja um 22 milljón punda kaupverð og að Nasri sé mjög sáttur við að nánast tvöfalda launin sem hann hefði fengið í nýju samningstilboði frá Arsenal.

Vandamálið er bara að það á enn eftir að ákveða þóknun umboðsmannanna sem komu að þessu máli sem og að ganga frá öðrum minni atriðum í kringum saminginn.

Þetta gæti því þýtt að Nasri geti ekki spilað sinn fyrsta leik með

Manchester City á móti Bolton um helgina en Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur fyrir nokkru tekið þá ákvörðun að nota ekki Nasri í leikjum Arsenal þótt að hann teljist enn vera leikmaður félagsins.

Wenger gæti vissulega notað Nasri á móti Liverpool á morgun enda er mikið um forföll á miðju Arsenal-liðsins. Alex Song og Gervinho eru báðir í banni, Jack Wilshere og Abou Diaby eru báðir meiddir og þá er Tomas Rosicky líka tæpur vegna meiðsla.

Wenger lítur svo á að Nasri sé farinn enda aðeins löngu ljóst að hann muni elta þá Kolo Touré, Emmanuel Adebayor og Gaël Clichy til Manchester City. Nasri spilar líklega sinn fyrsta leik með City þegar liðið mætir Tottenham á sunnudaginn eftir rúma viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×