Enski boltinn

Japaninn Ryo Miyaichi orðinn löglegur með Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryo Miyaichi.
Ryo Miyaichi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Japanski framherjinn Ryo Miyaichi, sem skrifaði undir fimm ára samning við Arsenal í desember síðastliðnum, er loksins kominn með atvinnuleyfi og er því orðinn löglegur með enska félaginu.

„Ég er rosalega ánægður. Tímabilið er byrjað og ég vil hitta liðið sem fyrst. Ég ætla að sýna að ég geti spilað í topp deild og ætla að ná árangri. Ég ætla að skora eins mörg mörk og ég mögulega get," sagði hinn átján ára Ryo Miyaichi.

Arsenal fékk ekki atvinnuleyfi fyrir Miyaichi á síðasta tímabili og hann var þá lánaður til hollenska liðsins Rotterdam þar semhann var með 3 mörk og 5 stoðsendingar í 12 leikjum. Hann hefur fengið gælunafnið "Ryodinho" í Japan sem er vísun í Ronaldinho.

„Hann mun spila sem framherji, annaðhvort vinstra eða hægra meginn. Hann er mjög beittur," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal en hann talaði líka um að Miyaichi gæti jafnvel verið í leikmannahópnum á móti Liverpool á morgun.

Miyaichi verður annar Japaninn sem spilar fyrir Arsenal en það gekk þó lítið upp hjá Junichi Inamoto sem spilaði með liðinu tímabilið 2001-02.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×