Íslenski boltinn

Tryggvi: Fimm mörk - ekki fjögur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV.
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV.
Tryggvi Guðmundsson skoraði tvö mörk og lagði eitt upp í 3-1 sigri ÍBV á Fylki í Pepsi-deild karla í kvöld.

„Það hefði verið gaman að setja þrennuna í lokin en við fórum illa með það færi,“ sagði hann í léttum dúr. „Við spiluðum vel, pressuðum hátt og létum boltann ganga vel okkar á milli.“

ÍBV tapaði fyrir Þór í bikarnum í síðustu viku og Tryggvi segir að að það hafi verið sárt að detta úr leik í bikarkeppninni. „Við vorum nálægt því að komast í úrslitaleikinn en við fengum verslunarmannahelgina til að fara yfir hlutina. Við vorum því ekkert rúllandi í brekkunni, heldur einbeittum okkur að verkefninu og vorum við staðráðnir í að ná góðum leik eftir Þjóðhátíð. Við vildum sýna fagmennsku í dag.“

Tryggvi segir að Eyjamenn megi ekkert gefa eftir á lokasprettinum í deildinni ætli liðið sér að ná toppliði KR að stigum. „Við verðum að halda áfram að sýna sömu baráttu og vilja eins og við gerðum í dag. Ég hef ekki mikla trú á því að KR muni misstíga sig mikið eins og þeir hafa verið að spila. Við verðum því að passa okkur á því að tapa ekki stigum að óþörfu því annars eru þeir stungnir af.“

Tryggvi á nú fjögur mörk í að jafna markamet Inga Björns Albertssonar sem skoraði 126 mörk í efstu deild á sínum tíma. „Það eru fjögur mörk til að jafna en við tölum ekkert um það. Það eru enn fimm mörk eftir,“ sagði hann í léttum dúr.

„Mér er svo sem sama hvort ég bæti þetta met í sumar eða næsta sumar. Ég ætla ekki að hætta í haust enda hef ég enn mjög gaman af boltanum og tel mig enn ágætan í honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×