Íslenski boltinn

Gunnar Már: Heimavöllurinn okkar er víst gryfja

Hjalti Þór Hreinsson á Akureyri skrifar
Gunnar Már Guðmundsson hefur verið lykilmaður í Þórsliðinu í sumar. Hann átti enn einn góða leikinn í kvöld þegar hann fór fyrir sínu liði sem vann Fram 3-0.

“Við settum upp nokkur lítið mót, núna er eitt þeirra búið og við unnum alla leikina þar. Við höldum því fram að þessi heimavöllur sé gryfja, þó að aðrir vilja meina annað. Við viljum sína að menn valta ekkert yfir okkur hérna.”

“Við áttum ekkert sérstakan leik. Við vissum að Framarar myndu berjast fyrir sigrinum en við skoruðum fleiri mörk en þeir og það telur. Hver og einn lagði sig fram, en eftir fyrsta markið höfðum við engar áhyggjur. Fram er ekkert að fara að skora tvö mörk í leik,” sagði Gunnar Már.

Framundan er leikur gegn Stjörnunni og svo bikarúrslitaleikur gegn KR. “Næsti leikur er mikilvægur, síðasti leikur fyrir bikarúrslitin, og við ætlum að halda skriðinu góða áfram. Það þýðir ekkert að vinna síðasta leik fyrir bikarúrslitin og hætta þar, ég þekki það. Fátt leiðinlegra,” sagði Gunnar Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×