Íslenski boltinn

Óskar Örn: Tímabilið er búið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óskar Örn hefur farið á kostum með KR í sumar og meiðsli hans blóðtaka fyrir liðið.
Óskar Örn hefur farið á kostum með KR í sumar og meiðsli hans blóðtaka fyrir liðið. Mynd/Vilhelm
Óskar Örn Hauksson leikmaður KR leikur ekki meira með liðinu á þessari leiktíð. Óskar Örn, sem meiddist í viðureign KR gegn Dinamo Tbilisi í Evrópudeildinni í gærkvöld, staðfesti þetta í samtali við íþróttadeild Vísis fyrir stundu.

Óskar Örn segir bein í ristinni brotið, sama bein og David Beckham braut um árið og er í raun kennt við kappann.

„Það má eiginlega segja að tímabilið sé búið,“ sagði Óskar Örn greinilega hundfúll með stöðu mála.

Óskar Örn var að taka eina af sínum skemmtilegu gabbhreyfingum þegar slysið átti sér stað.

„Þetta er það fyrsta sem gerist í seinni hálfleik. Ég fæ boltann frá Agli (Jónssyni) og er að taka mann á. Allur þunginn fer á hægri löppina þegar ég er að taka fintu yfir á vinstri löppina og þá gefur eitthvað sig. Ég vissi strax að þetta væri farið,“ sagði Óskar Örn.

Kantmaðurinn hefur farið á kostum með KR-liðinu í sumar. Hann hefur náð afar vel saman við Guðmund Reyni Gunnarsson á vinstri kantinum sem hefur verið eitt sterkasta vopn KR í sumar.

Óskar Örn var valinn í úrvalslið umferða 1-11 í Pepsi-deildinni fyrir frammistöðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×