Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir: Engin hætta á að maður ofmetnist

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mummi var frábær í kvöld.
Mummi var frábær í kvöld. mynd/anton
Guðmundur Reynir Gunnarsson var besti maður vallarins í 4-0 sigri KR gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld. Ekkert lát er á velgengni KR-inga í sumar.

„Við mættum tilbúnir til leiks. Skoruðum þrjú mörk úr föstum leikatriðum og það kláraði þetta fyrir okkur."

KR-ingar hafa ekki skorað mörg mörk úr föstum leikatriðum í sumar.

„Nei, við höfum ekki skorað það mörg, nokkur samt. En í dag datt þetta algjörlega inn," sagði Guðmundur Reynir sem var svo sannarlega í hressari kantinum.

Blikar pressuðu KR-inga í upphafi leiks og ætluðu greinilega að láta KR-inga hafa fyrir hlutunum.

„Við náðum marki á annarri mínútu og það virtist slá þá út af laginu," sagði Guðmundur Reynir.

Guðmundur Reynir hefur verið lofaður fyrir frammistöðu sína í sumar og var meðal annars valinn besti leikmaður fyrri umferðar á Stöð2 Sport. Hann segir enga hættu á því að hann ofmetnist á vellinum.

„Nei, það er bara gaman að því. Maður er ekkert að pæla í því inni á vellinum. Maður er bara að spila sinn leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×