Enski boltinn

Nærveru Jovanovic hjá Liverpool ekki lengur óskað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Milan Jovanovic í einum af fáum leikjum sínum í treyju Liverpool á síðustu leiktíð
Milan Jovanovic í einum af fáum leikjum sínum í treyju Liverpool á síðustu leiktíð Nordic Photos/AFP
Serbinn Milan Jovanovic leikmaður Liverpool hefur fengið þau skilaboð frá félaginu að krafta hans sé ekki lengur óskað. Jovanovic kom til félagsins á frjálsri sölu síðastliðið sumar en fékk fá tækifæri með Liverpool eftir að Rafa Benitez var látinn taka pokann sinn.

„Ég fékk það skriflegt frá Liverpool að mér sé frjálst að leita að nýju félagi,“ sagði Jovanovic við gríska fjölmiðla en Jovanovic er orðaður við Olympiakos.

„Hingað til hef ég ekki fengið formlegt tilboð frá Olympiakos en ég hlakka til að heyra um áætlanir þeirra,“ bætti Serbinn þrítugi við.

Jovanovic sem kom til Liverpool frá Standard Liege í Belgíu gæti snúið á fornar slóðir. Talið er að Anderlecht og Club Brugge séu heit fyrir honum auk þýsku félaganna Schalke og Stuttgart sem reyndu að klófesta hann síðastliðið sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×