Innlent

Ætlar að höggva á Ódrjúgsháls-hnútinn í haust



Ögmundur Jónasson, ráðherra vegamála, hyggst strax í haust höggva á hnútinn í deilunum um Teigsskóg sem hindra vegagerð á sunnverðum Vestfjörðum, og telur nýtt umhverfismat á nýjum forsendum koma til greina. Dýrafjarðargöng vill hann setja í forgang.

Eftir þriggja daga leiðangur um vegi Vestfjarða í vikunni segir Ögmundur tvennt standa upp úr; annarsvegar hve mikið hafi þegar áunnist, en hins vegar hve mikið sé enn ógert. Hann segir Vestfirði ólíka aðra landshlutum að því leyti að þar eigi enn eftir að tryggja lágmarkssamgöngur.

Hann segist vera að horfa til Dynjandisheiðar og skilja vel kröfur Vestfirðinga um Dýrafjarðargöng, þótt ekki sé unnt að ráðast í þau að sinni vegna fjárskorts. Hann segir brýnt að menn sameinist um að setja Vestfirði í forgang. Horfa verði til þeirra sem geti ekki komist frá einum stað til annars. Setji verða þá framar í forgangsröðina en hina sem búi við bærilegar samgöngur en vildu gjarnan bæta þær enn betur.

Spurður, hvort þetta þýði að Dýrafjarðargöng fari í fyrsta sæti í jarðgangaröðinni, vill hann ekki gera upp á milli þeirra og Norðfjarðarganga. "Þessi tvenn göng hljóta að verða þær stórframkvæmdir í gangamálum sem við horfum fyrst til," segir Ögmundur.

Mest aðkallandi segir hann þó að ljúka Vestfjarðavegi um Barðaströndina og höggva á þann hnút sem er vegna deilna um Teigsskóg. Ögmundur hvetur til þess að allir komi fordómalaust og með opnum huga að borðinu og segir að það kosti einnig mikið rask að endurbyggja veginn yfir hálsana tvo, Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

"Það mun kosta verulegt rask og við verðum að horfast í augu við það líka."

Hann útilokar því ekki að veglínan verði um Teigsskóg og þvert yfir firðina tvo, Djúpafjörð og Gufufjörð. "En að sjálfsögðu göngum við ekki gegn umhverfismati. Það gerum við ekki. Hvort það sé nauðsynlegt að ráðast í umhverfismat, þar sem heildardæmið er gert upp á nýjum forsendum, - það er eitthvað sem við þurfum einfaldlega að skoða."

Hann hefur skipað samráðshóp sveitarfélaga og náttúruverndarsamtaka til að leysa málið á næstu vikum. "Og það er mikil samstaða með Vestfirðingum og öllum aðilum þessa máls að höggva á þessa hnúta og komast að niðurstöðu."

-Hvenær?

"Í haust," svarar Ögmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×