Fótbolti

Enn dettur England út eftir vítaspyrnukeppni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hope Powell reynir að gefa sínum leikmönnum von fyrir vítaspyrnukeppnina
Hope Powell reynir að gefa sínum leikmönnum von fyrir vítaspyrnukeppnina Nordic Photos/AFP
Frakkar eru komnir í undanúrslit á HM kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi. Liðið lagði England í fyrsta leik 8-liða úrslitanna í dag eftir vítaspyrnukeppni. Englendingar voru þremur mínútum frá sigri í venjulegum leiktíma.

Englendingar komust yfir á 58. mínútu með marki Jill Scott. Hún lét vaða fyrir utan teig og boltinn sigldi yfir markvörð Frakka sem var illa staðsettur. Fyrirfram voru Frakkar taldir sigurstranglegri í viðureigninni og staðan óvænt. Frakkar sóttu og sóttu í kjölfarið og þremur mínútum fyrir leikslok skilaði það árangri. Þá skoraði Élise Bussaglia stórkostlegt mark með skoti upp í vinkilinn og allt í járnum.

Í framlengingunni var ekkert skorað og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Frakkar brenndu af sinni fyrstu spyrnu og útlitið gott fyrir Englendinga. Ensku stelpunum brást hins vegar bogalistin í tvígang og franskur sigur staðreynd.

Það á ekki af Englendingum að ganga í vítaspyrnukeppnum á stórmótum. Karlalandslið Englands datt út úr keppni eftir vítaspyrnukeppni á HM 1990, EM 1996, HM 1998, EM 2004 og HM 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×