Fótbolti

Bin Hammam mun ekki segja af sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bin Hammam heldur fram sakleysi sínu
Bin Hammam heldur fram sakleysi sínu Mynd/AFP Nordic
Mohammed bin Hammam mun ekki fara að fordæmi Jack Warner og segja af sér hjá alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA. Warner sagði af sér fyrr í vikunni og talið var líklegt að bin Hammam gerði slíkt hið sama.

Þeir félagar voru báðir úrskurðaðir í bann frá afskiptum af knattspyrnu af siðanefnd FIFA þar sem þeir eru undir grun um að hafa mútað fulltrúum knattspyrnusambanda karabíska hafsins á fundi í Trinidad. Rannsókn málsins stendur yfir en þeir hafa báðir neitað sök.

Greiðslurnar áttu að tryggja atkvæði sambandanna í forsetakjöri FIFA sem fram fór fyrir nokkrum vikum. Líkt og alþjóð veit dró bin Hammam framboð sitt tilbaka á síðustu stundu og Sepp Blatter var einn í framboði og hlaut frábæra kosningu.

Bin Hammam telur að FIFA-fulltrúar frá Tælandi og Sri Lanka, sem voru með honum í för á fundinum í Trinidad, muni skýra frá því sem raunverulega átti sér stað á fundinum umrædda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×