Innlent

Starfsfólk Landakotsskóla: Óendanlega sorglegt mál

Landakotsskóli er ekki lengur kaþólskur skóli
Landakotsskóli er ekki lengur kaþólskur skóli Mynd úr safni: Hari
„Það má öllum vera ljóst að núverandi stjórn og starfsfólk Landakotsskóla taka málið afar nærri sér og finnst þetta mál óendanlega sorglegt.  Það veldur óhug meðal skjólstæðinga skólans, foreldra og nemenda. Við vonum að fórnalömbin fái að upplifa eitthvert réttlæti af hendi þeirra sem teljast ábyrgir að lokinni rannsókn opinberra aðila."

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórn Landakotsskóla hefur sent frá sér vegna umræðu um kynferðisbrot innan skólans á árum áður.

Þar er tekið fram að Landakotsskóli er ekki kaþólskur skóli í dag heldur sjálfstæð menntastofnun sem rekur forskóla- og grunnskóladeildir í húsakynnum Landakots.

„Hjá skólanum starfa eingöngu kennarar með menntun frá Kennaraháskóla Íslands. Enginn kennari eða leiðbeinandi starfar þar á vegum kirkjunnar enda skólinn einkarekin sjálfseignarstofnun og hefur verið það síðastliðin 7 ár. Það eina sem er sameiginlegt með skólanum í dag og þeim skóla sem starfaði á þeim tíma sem þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað, er nafnið og staðsetningin," segir í yfirlýsingunni.

Einnig kemur fram að í vetur hafi starf skólans verið tekið út af Menntasviði Reykjavíkurborgar og að skólinn hafi þar fengið bestu niðurstöðu sem grunnskóli hefur fengið.

„Stjórn og starfsfólk Landakotsskóla harmar að starfsemi skólans nú skuli þurfa bíða hnekki fyrir misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð.

Hugur starfsfólks Landakotsskóla er hjá þeim sem eiga um sárt að binda í þessu sorglega máli," segir í yfirlýsingunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×