Enski boltinn

Chelsea greiðir hæstu launin - laun fara hækkandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Roman Abramovich er með djúpa vasa
Roman Abramovich er með djúpa vasa Mynd/Getty Images
Í nýrri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte kemur fram að laun í ensku úrvalsdeildinni fari hækkandi. Tekjur félaganna fara einnig hækkandi en þó ekki jafnhratt og launakostnaður. Það er áhyggjuefni fyrir félögin en launakostnaður étur upp 68 prósent af tekjum félaganna.

Skýrslan nær til keppnistímabilsins 2009-2010. Tekjur úrvalsdeildaliðanna samanlagt voru 2.03 milljarður evra en þetta er í fyrsta sinn sem heildartekjurnar ná tveimur milljörðum evra. Reiknað er með því að tekjurnar á nýliðnu tímabili verði enn hærri eða í kringum 2.2 milljarða evra.  

Enska úrvalsdeildin er tekjuhæsta deild Evrópu en eftirfarandi eru fimm tekjuhæstu deildirnar tímabilið 2009-2010.

England        2,0 milljarður evra

Þýskaland    1,4 milljarður evra

Ítalía            1,3 milljarður evra

Spánn           1,3 milljarður evra

Frakkland     0,9 milljarður evra

Í skýrslunni kemur einnig fram að Chelsea greiðir mesta allra félaga í laun eða 252 milljón evrur. Manchester-liðin City og United koma næst með rúmar 190 milljón evrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×