Enski boltinn

Birmingham vill bætur vegna McLeish

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skotinn rauðhærði á hliðarlínunni
Skotinn rauðhærði á hliðarlínunni Mynd/Getty Images
Peter Pannu, stjórnarformaður enska knattspyrnuliðsins Birmingham, segir að félagið muni krefjast skaðabóta reyni Aston Villa að semja við Alex McLeish. McLeish sagði upp starfi sínu hjá Birmingham um helgina.

Að sögn Pannu á Birmingham rétt á 5.4 milljónum punda í skaðabætur taki McLeish við Aston Villa í þessum mánuði. Skaðabæturnar lækka í 3 milljónir punda verði gengið frá samningum eftir 1. júlí.

Pennu er afar ósáttur við fyrirspurn Aston Villa þess efnis hvort rétt sé að McLeish sé nú laus allra mála frá félaginu. Hann segir það staðfesta grun flestra, þ.e. að Villa hafi rætt við hann á meðan hann var á mála hjá Birmingham.

Líkt og með leikmenn mega félög ekki ræða við samningsbundna knattspyrnustjóra. Slíkar fyrirspurnir eiga að berast félögunum sem ákveða hvort þeir gefi grænt ljós á viðræður eður ei.

Pennu var myrkur í máli sínu við Sky fréttastofuna og ætlar að kæra atvikið til Úrvalsdeildarinnar.

„Þetta er á mörkum þess að vera glæpsamlegt athæfi. Svo mikið vil ég segja,“ sagði Pennu.

Ekki hjálpar til að Aston Villa og Birmingham eru nágrannar og erkifjendur. Birmingham féll í næst efstu deild á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×