Enski boltinn

Gervinho vill fara til Englands - Áhugi hjá Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gervinho var sjóðandi heitur fyrir framan markið með Lille í vetur
Gervinho var sjóðandi heitur fyrir framan markið með Lille í vetur Mynd/AFP
Gervinho sóknarmaður Lille vill yfirgefa félagið og spila á Englandi. Fréderic Paquet framkvæmdastjóri frönsku meistaranna staðfesti þetta í samtali við frönsku útvarpsstöðina RMC.

„Hann vill yfirgefa félagið og hefur heyrt hljóðið í forráðamönnum Arsenal. Við munum ræða við þá fljótlega og sjá hvað þeir segja. Leikmaðurinn hefur lýst yfir áhuga á að fara til Englands," sagði Paquet.

Paquet staðfesti ennfremur að Paris Saint-Germain hefði sýnt leikmanninum áhuga. Lille myndi þó ekki selja leikmanninn til stórliðs í Frakklandi. Parísarliðið hefur úr miklum peningum að spila þessa dagana eftir yfirtöku fjárfesta frá Katar.

Lille er sagt þegar hafa hafnað tilboði frá Tottenham upp á tólf milljónir evra og vilja hærri upphæð fyrir sóknarmanninn frá Fílabeinsströndinni. Gervinho, sem er 24 ára, spilaði lykilhlutverk í liði Lille sem varð tvöfaldur meistari í Frakklandi á síðasta tímabili.

Í viðtalinu kom einnig fram að Lille myndi gera allt sem félagið gæti til þess að halda Belganum Eden Hazard hjá félaginu þrátt fyrir mikinn áhuga stórliða í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×