Innlent

Íslenskir framhaldsskólanemar hvattir til herþjónustu í Noregi

Heimir Már Pétursson skrifar
Hilmar Páll Haraldsson er tuttugu og níu ára og gegnir herþjónustu í norska hernum.
Hilmar Páll Haraldsson er tuttugu og níu ára og gegnir herþjónustu í norska hernum. Mynd úr einkasafni
Nokkrir Íslendingar í norska hernum hafa sinnt herþjónustu sinni í Afganistan. Einn þeirra hefur kynnt íslenskum námsmönnum möguleika á framhaldsnámi í norska hernum en hann segir engann vera neyddan til að fara til Afganistan.

Hilmar Páll Haraldsson er tuttugu og níu ára og gegnir herþjónustu í norska hernum. Hvati hans til herþjónustu var að eftir að hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík, heyrði hann af því að hann gæti lokið framhaldsnámi í verkfræði í norska hernum.

„Nám sem er ókeypis og ekki nóg með það, heldur fá borgað fyrir að nema og örugga vinnu í þrjú ár eftir námið," segir Hilmar Páll. Þá fylgi hermennskunni einnig pínuævintýri og því hafi hann ákveðið að slá til.

Hilmar hefur gengt herþjónustu frá árinu 2003 og vinnur einnig við að afla nýliða í norska herinn. En nemendur fá fría heimferð upp á það að kynna námsmöguleika í hernum og það hefur Hilmar gert í þrígang, nú síðast í febrúarmánuði síðast liðnum.

„Það gerði ég náttúrlega meðan ég var nemandi í skólanum (verkfræðiskóla á vegum hersins), fékk ókeypis heimferðir til Íslands og kynnti skólann minn bæði í Menntaskólanum í Reykjavík og Verslunarskólanum ," segir Hilmar Páll. Hann hafi síðast komið hingað til lands í febrúar og þá kynnt námsmöguleika norska hersins í MR, Verslunarskólanum og Menntaskólanum Hraðbraut.

Þessa kynningu gefur Hilmar með leyfi skólastjórnenda og er hún einkum ætluð útskriftarnemum. „Það eina sem ég segi frá er hvaða nám þau geta fengið , hvað getur fylgt náminu og vinnan þar getur bæði verið í Noregi og endað í Afganistan að sjálfsögðu," segir Hilmar.

Hilmar Páll. Mynd úr einkasafni
Töluverð umræða hefur verið um Íslendinga í norska hernum í norskum fjölmiðlum í dag, eftir að frétt um málið birtist á fréttavef norska ríkissjónvarpsins. Þar var m.a. rætt hvort eðlilegt væri að Íslendingar væru sendir til Afganistan til að berjast þar fyrir Norðmenn. En Hilmar er einn sex Íslendinga sem farið hefur þangað.

Hilmar segir menn þurfa að sækjast sérstaklega eftir því að fara til Afganistan. „Ég bað um að fara og fékk að fara. Maður er ekki skyldugur eða sendur til Afganistan," segir hann. Honum sé ekki kunnugt um neinn sem hafi „verið sparkað til Afganistan" eins og hann orðar það.

Þetta eigi jafnt við um Norðmenn sem og aðra í norska hernum, enginn sé neyddur til að þjóna í Afganistan. Ef svo væri þætti það stórfrétt í Noregi. Sjálfur lenti hann í átökum og var hætt kominn í Afganistan.

„Átök eru átök og stríð er ekki fallegt. Það fylgir engin rómantík stríði eins og margir vilja halda," segir þessi 29 ára íslenski hermaður. Hann hafi oft verið hætt kominn í Afganistan en heppnin hafi verið með honum og gott fólk í kringum hann og því hafi gengið vel í þetta skipti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×