Erlent

Var í meira en fimmtán ár á flótta

Hershöfðinginn Ratkó Mladic hefur verið handsamaður eftir meira en fimmtán ár á flótta. Hann er talinn bera ábyrgð á þjóðarmorði í Bosníu.

Forseti Serbíu tilkynnti um handtökuna í dag, en hann hefur verið eftirlýstur síðan ákæra var gefin út á hendur honum fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag árið 1995.

Hinum 69 ára gamla Mladic er gefið að sök að bera ábyrgð á þjóðarmorði, en hermenn undir hans stjórn drápu um 8000 múslima í bænum Srebrenica í Bosníustríðinu og frömdu önnur voðaverk. Drápin í Srebrenica eru ógurlegasta fjöldamorð Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Hann hefur farið huldu höfði síðan Slobodan Milosevic var hrakinn frá völdum í Serbíu árið 2001, en fram að því sást hann oft opinberlega í landinu. Einn af samverkamönnum hans, Radovan Karadzic, var handtekinn árið 2008, en þá tók að þrengja mjög að Mladic. Hann var svo handtekinn í dag í smáþorpi í norðanverðri Serbíu.

Saksóknari stríðsglæpadómstólsins hefur undanfarið þrýst á Serba um að handtaka Mladic, en hann er sagður hafa dvalið í Serbíu undir verndarvæng harðlínumanna sem líta á hann sem hetju. Forseti landsins tilkynnti í dag að hann verði framseldur til Haag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×