Fótbolti

Bin Hammam: Ef ég er sekur þá er Blatter það líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed bin Hammam.
Mohamed bin Hammam. Mynd/AP
Mohamed bin Hammam, frambjóðandi í forsetakosningum FIFA, hefur snúið vörn í sókn eftir að hann var sakaður um að vera flæktur í mútumál í aðdraganda kosninganna. Bin Hammam neitar allri sök en heimtar að aðkoma Blatter að málinu verði einnig rannsökuð.

FIFA setti af stað rannsókn vegna ásakanna á hendur Mohamed bin Hammam og Jack Warner, varaforseta FIFA, sem eiga að hafa brotið siðareglur FIFA á fundi hjá karabíska fótboltasambandinu. Fundurinn var haldinn í tengslum við komandi forsetakosningar FIFA. Bin Hammam er að reyna að enda þrettán ára setu Sepp Blatter í forsetastól FIFA og var þetta mál mikið áfall fyrir framboð hans.

Mohamed bin Hammam hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann útskýrir málið og segir jafnframt að ef að hann sé sekur þá sér Blatter það líka því að forseti FIFA vissi af og samþykkti það sem fór fram á umræddum fundi.

Bin Hammam og Jack Warner halda því fram að þetta mútumáls-hneyksli hafi aðeins verið taktík hjá Sepp Blatter í kosningarbaráttunni. Blatter sjálfur sagðist koma að fjöllum í þessu máli og að hann harmi það ennfremur að "góðvinur" sinn til tugi ára skuli lenda í slíku.

Bin Hammam segist óttast ekkert þegar hann kemur fram fyrir Siðanefnd FIFA á sunnudaginn svo framarlega sem að málið fá heiðarlega og sanngjarna meðferð hjá nefndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×