Enski boltinn

Hiddink er til í að skoða tilboð frá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink á Brúnni fyrir tveimur árum.
Guus Hiddink á Brúnni fyrir tveimur árum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guus Hiddink, núverandi þjálfari tyrkneska landsliðsins, hefur ekki lokað á þann möguleika á að snúa aftur á Stamford Bridge og setjast aftur á stjórastólinn hjá Chelsea ef marka má frétt Sky Sports í dag.

Roman Abramovich, eignandi Chelsea, er með þennan 64 ára Hollending efstan á blaði hjá sér en Hiddink gerði frábæra hluti með Chelsea-liðið þegar hann stýrði því þrjá síðustu mánuði 2008-2009 tímabilsins eftir að Luiz Felipe Scolari var rekinn.

„Ef ég fengi formlegt tilboð þá myndi ég skoða það," hefur Sky Sports eftir Guus Hiddink sem er að undirbúa leik með Tyrklandi á móti Belgíu í undankeppni EM.

„Ég ætla að byrja á því að klára þennan leik á föstudaginn kemur en það er mjög erfiður leikur. Eftir það getum við skoðað þetta betur," sagði Hiddink  en tapi Tyrkir leiknum á liðið nánast enga möguleika lengur á að komast í úrslitakeppnina í Póllandi og Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×