Enski boltinn

Redknapp: Við þurfum kraftaverk til þess að ná fjórða sætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur viðurkennt að það þurfi mikið að gerast ætli liðið að komast aftur í Meistaradeildina. Tottenham er sex stigum á eftir Manchester City þegar þrjár umferðir eru eftir en liðin mætast einmitt í Manchester í kvöld.

Útlitið er vissulega ekki bjart fyrir Spurs-liðið sem á líka á hættu að missa fimmta sætið til Liverpool. Það hjálpar heldur ekki til að Manchester City er með mun betri markatölu.

„Þeir eru sex stigum á undan okkur og að auki mílum á undan í markatölu. Það þarf kraftaverk til að ná þeim," sagði Harry Redknapp og hann segir líka gera sér grein fyrir því að það verði erfitt fyrir Tottenham að komast í hóp efstu fjögurra liðanna á næsta tímabili.

„Eins og ég hef sagt það milljón sinnum áður þá er þetta spurning um hvaða lið mun detta út. Man United er ekki að fara niður fyrir fjórða sætið ekki frekar en Chelsea og þá Arsenal búinn að vera þarna á hverju ári," segir Redknapp.

„City-liðið mun líklega eyða öðum 200 milljónum í sumar og Liverpool á líka eftir að bæta sinn hóp. Það verður því afar erfitt að komast í hóp fjögurra efstu liða," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×