Enski boltinn

Adam og DJ Campbell héldu áfram að rífast á heimleiðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charlie Adam vildi fá að taka vítið.
Charlie Adam vildi fá að taka vítið. Mynd/AFP
Það vakti athygli í leik Tottenham og Blackpool í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi þegar Blackpool-mennirnir Charlie Adam og DJ Campbell vildu báðir fá að taka vítaspyrnu í seinni hálfleik. Það leyndi sér ekki að þeir voru mjög ósáttir og nú hefur komið í ljós að þeir héldu áfram að karpa um þetta á heimleiðinni norður til Blackpool.

Charlie Adam er aðalvítaskytta Blackpool en hann var þarna nýbúinn að láta Heurelho Gomes, markvörð Tottenham, verja frá sér víti. DJ Campbell, markahæsti leikmaður liðsins, vildi því fá tækifæri þegar Blackpool fékk annað víti 90 sekúndum síðar.

Adam gaf sig hinsvegar ekki, skoraði af öryggi úr vítinu og kom Blackpool í 1-0 en Jermain Defoe náði síðan að tryggja Spurs jafntefli í lokin.

Ian Holloway, stjóri Blackpool, sagði síðan frá því í viðtali við Blackpool Gazette að hann þurfti að grípa inn í rifildi þeirra Adam og Campbell á heimleiðinni. Holloway viðurkenndi það jafnframt að hann hefði látið DJ Campbell taka vítið ef að þeir hefðu spurt sig.

Holloway vildi þó ekki gera of mikið úr þessu máli og er á því að þetta hafi aðeins sýnt fram á keppnisskap leikmannanna og hversu mikið þeir vildu vinna leikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×