Enski boltinn

Stendur Warnock við orð sín og lætur Heiðar fá nýjan samning?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson fagnar hér marki sínu um helgina.
Heiðar Helguson fagnar hér marki sínu um helgina. Mynd/Nordic Photos/Getty
London Evening Standard skrifar um mál Heiðars Helgusonar í dag en Heiðar vill gera nýjan samning við Queens Park Rangers sem vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni fyrir næsta tímabil. Blaðið veltir því fyrir sér hvort stjórinn Neil Warnock standi við orð sín frá því í mars en þá sagði hann að Heiðar myndi fá nýjan samning.

Heiðar er orðinn 33 ára gamall en hann skoraði 13 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 34 leikjum með QPR á þessu tímabili og átti mikinn þátt í því að Queens Park Rangers vann ensku b-deildina og spilar í fyrsta sinn í fimmtán ár í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er búinn að segja við Heiðar að hann fái nýjan samning. Hann veit að ég mun passa upp á hann og að hann hefur hlutverk hjá okkur á næsta tímabili," sagði Neil Warnock í mars.

„Ég hef ekki samning eins og staðan er núna en ég er vongóður um að fá samning. Það verða samt alltaf sögusagnir í gangi um leikmenn og stjóra hjá QPR," sagði Heiðar við London Evening Standard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×