Fótbolti

Rummenigge vill binda endi á vináttulandsleiki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Karl-Heinz Rummenigge, forseti Bayern München, segir að minnka þurfi álagið á leikmenn í dag og að besta leiðin til þess sé að hætta að spila vináttulandsleiki.

Rummenigge telur að keppnisleikir séu nógu margir í alþjóðlegri knattspyrnu og að vináttuleikir séu í raun tilgangslausir.

„Það ættu bara að vera leikir í undankeppnum stórmóta og hætta vináttulandsleikjum,“ sagði Rummenigge í samtali við AFP-fréttastofuna.

„Sex leikir í undankeppni á hverju ári og svo lokakeppni annað hvert ár. Það er allt og sumt,“ bætti hann við en Rummenigge er einnig í forsvari fyrir samtök knattspyrnufélaga í Evrópu.

„Öll knattspyrnufélög í Evrópu eru orðin pirruð á bæði UEFA og FIFA sem stilla upp dagatali sínu án þess að taka nokkuð tillit til félaganna eða leikmannanna sjálfra.“

Tímabilinu í Þýskalandi lýkur á morgun en margir leikmenn Bayern munu taka þátt í landsleikjum sem eru fram undan, bæði vináttuleikjum og í undankeppni EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×