Fótbolti

Blanc íhugaði að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Laurent Blanc, landsliðsþjálfari Frakklands, segir að hann hafi íhugað að segja starfi sínu lausu í tengslum við kynþáttahneykslið sem skók franska knattspyrnusambandið á dögunum.

Á dögunum bárust fregnir af því að Frakkar hefðu í hyggju að setja takmarkanir á fjölda leikmanna sem eru með tvöfaldan ríksiborgararétt í yngri landsliðum sínum.

„Ég bauðst aldrei til að hætta," sagði Blanc í viðtali við franska fjölmiðla. „En ég íhugaði að hætta."

„Stundum finnst manni hlutirnir ganga of langt, sérstaklega þegar þeir taka á sig mynd sem tengist íþróttum á engan hátt."

„Ef lausnin er að hætta, þá verður maður að hætta. En það eru stærri mál sem ég verð að íhuga. Ég var ráðinn til þess að koma liðinu á EM 2012 og það ætla ég að gera."

Blanc og fleiri innan raða knattspyrnusambandsins munu hafa rætt sín á milli að takmarka fjölda leikmanna með tvöfaldan ríkisborgararétt í æfingabúðum yngri landsliða.

Á undanförnum árum hafa margir leikmenn komið upp í gegnum yngri landslið Frakklands en svo kosið að leika með A-landsliði hins heimalandsins síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×