Fótbolti

Sjö ára bið Ajax á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Ajax fagna í dag.
Leikmenn Ajax fagna í dag. Nordic Photos / AFP
Ajax varð í dag hollenskur meistari í knattspyrnu eftir sigur á Twente í hreinum úrslitaleik í lokaumferð deildarinnar, 3-1. Ajax varð síðast meistari árið 2004 og biðin því búin að vera löng fyrir þetta stórveldi.

Siem De Jong kom Ajax yfir í fyrri hálfleik en Denny Landzaat, leikmaður Twente varð fyrir því óláni, að skora sjálfsmark í upphafi síðari hálfleiks. Theo Janssen náði þó að minnka muninn fyrir Twente aðeins einni mínútu síðar.

De Jong tryggði svo Ajax sigurinn og þar með titilinn með marki á 78. mínútu. Ajax vann síðustu sex leiki sína í deildinni og endaði með 73 stig. Twente var í toppsætinu fyrir lokaumferðina með 71 stig.

AZ Alkmaar varð í fjórða sæti deildarinnar þrátt fyrir 5-1 tap fyrir Utrecht á útivelli. Kolbeinn Sigþórsson lék allan leikinn fyrir AZ en þetta var líklega hans síðasti leikur með liðinu. Hann hefur verið sterklega orðaður við Ajax.

Jóhann Berg Guðmundsson sat á bekknum hjá AZ en kom ekki við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×