Enski boltinn

Dalglish ánægður með Suarez: Kemur alltaf brosandi á æfingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hrósaði Úrúgvæmanninum Luis Suarez mikið eftir 3-0 sigurinn á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í gær. Eins og undanförnu fór allt í gegnum Suarez í sóknarleik Liverpool-liðsins.

Liverpool hefur náð í 30 stig af síðustu 42 mögulegum og þar hefur innkoma Luis Suarez haft mikið að segja. Suarez er með 3 mörk og 4 stoðsendingar í 10 leikjum með Liverpool en hefur einnig átt þátt í undirbúningi mun fleiri marka. Liverpool hefur unnið sex af tíu leikjum sem hann hefur spilað og aðeins tapað tveimur.

„Hann er alltaf að koma sér inn í vítateiginn og að skapa hættu. Í þriðja markinu féll boltinn síðan vel fyrir hann," sagði Kenny Dalglish eftir sigurinn á Newcastle í gær. Suarez fiskaði víti og skoraði eitt mark í leiknum

„Luis er góð persóna og elskar það að spila fótbolta. Það væri erfitt fyrir hann ekki falla ekki inn í hópinn því hann er það lifandi og skemmtilegur strákur," sagði Dalglish.

„Þetta mun heldur ekkert breytast á næsta ári því Luis kemur alltaf brosandi á æfingar," bætti Dalglish við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×