Enski boltinn

Sir Alex enn á ný kominn í vandræði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United Mynd/Nordic Photos/Getty
Aganefnd enska knattspyrnusambandsins ætlar að skoða betur ummæli Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, í sjónvarpsviðtölum eftir 0-1 tap United á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Ferguson gagnrýndi dóma í leiknum þar sem United-liðinu mistókst að stíga stórt skref í átt að enska meistaratitlinum.

Ferguson er nýkominn til baka eftir fimm leikja bann fyrir að hrauna yfir dómarann Martin Atkinson fyrr í vetur. Ferguson talaði um það eftir Arsenal-leikinn að það væri dæmt á móti United í stóru leikjunum en lið eins og Chelsea fengi hinsvegar allt með sér.

Enskir fjölmiðlar litu þannig á ummæli Sir Alex eftir Arsenal-leikinn að hann væri að setja pressu á dómarana sem munu koma að leiknum mikilvæga á móti Chelsea um næstu helgi. Tap þar myndi þýða að United missti toppsætið til Chelsea.

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Sir Alex Ferguson eða félagsins verði hann enn á ný dæmdur í bann fyrir að tjá sig um atvik í leikjum United. Það mætti jafnvel búast við því að Sir Alex myndi bara hætta alveg að tjá sig við fjölmiðla verði hann dæmdur í bann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×