Enski boltinn

United hækkar miðaverðið en ekki eins mikið og Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Old Trafford.
Old Trafford. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United fetaði í fótspor Arsenal í dag og tilkynnti að félagið ætlaði að hækka miðaverð á Old Trafford á næsta tímabili. Félögin kenna verðbólgu og skattahækkun um þessa hækkun sem kemur sér ekki vel fyrir enska fótboltaáhugamenn í versnandi efnahagsástandi í Englandi.

Forráðamenn Manchester United hækka alla miða á Old Trafford um eitt pund eða rúmlega 184 íslenskar krónur. Dýrustu miðarnir kosta næsta vetur 50 pund (9200 krónur íslenskar) en þeir ódýrustu kosta 28 pund (5100 krónur íslenskar) á næsta tímabili.

Ódýrustu miðarnir á Old Trafford hækka því um 3,7 prósent sem er mun minni hækkun en hjá Arsenal sem hækkaði alla miða á Emirates leikvanginn um 6,5 prósent.

Stuðningsmenn United hafa reyndar verið að berjast fyrir því að Glazer-fjölskyldan lækkaði miðaverðið á Old Trafford vegna kreppunnar en það hafa eigendurnir gert hjá NFL-liði sínu í Bandaríkjunum, Tampa Bay Buccaneers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×