Enski boltinn

Nani: Eigum að vera að hugsa um Chelsea en ekki um Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani.
Nani. Mynd/AP
Nani, leikmaður Manchester United, segir að hann og félagar sínir verði að fara strax að einbeita sér að Chelsea-leiknum á sunnudaginn en megi ekki gleyma sér og vera að pæla í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley.

Það er stutt á milli stóru leikjanna hjá Manchester United þessa dagana því liðið sló Schalke út úr Meistaradeildinni í fyrrakvöld og mætir síðan Chelsea í hálfgerðum úrslitaleik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

„Við eigum að vera að hugsa um Chelsea en ekki um Barcelona. Mikilvægasti leikurinn okkar núna er leikurinn á móti Chelsea en ekki leikurinn á móti Barcelona. Þetta verður mjög erfiður leikur en við erum á heimavelli og það hefur gengið vel hjá okkur á móti þeim," sagði Nani.

„Við vitum að ef við ætlum að vinna Chelsea þá þurfum við að mæta með fullir sjálfstrausts til leiks. Við náðum góðum úrslitum á móti þeim í Meistaradeildinni og það gefur okkur andlegt forskot," sagði Nani.

United-liðið vann báða leikina á móti Chelsea í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir að Chelsea hafði unnið deildarleik liðanna á Brúnni.

„Við þurfum að einbeita okkur að því að spila okkar leik og að því að vinna leikinn. Ef við gerum það þá verður allt í góðu lagi hjá okkur. Við nánast klárum titilinn með sigri og þetta er því frábært tækifæri fyrir okkur," sagði Nani.

Nani hefur átt mjög flott tímabil með Manchester United en hann er með 9 mörk og 19 stoðsendingar í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni á þessarri leiktíð en á síðasta tímabili var hann með 3 mörk og 10 stoðsendingar í 23 leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×