Enski boltinn

Fabregas, Nasri og Diaby verða ekki með Arsenal á móti Stoke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas og Samir Nasri á æfingu.
Cesc Fabregas og Samir Nasri á æfingu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal verður án þriggja sterkra leikmanna þegar liðið sækir Stoke heim á Britannia Stadium í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Fyrirliðinn Cesc Fabregas, Samir Nasri og Abou Diaby eiga allir við meiðsli að stríða en það jákvæða er að Thomas Vermaelen gæti þarna spilað sinn fyrsta leik síðan í ágúst.

Fabregas er meiddur á mjöðm og missti þess vegna af sigurleiknum á móti Manchester United um síðustu helgi. Nasri þurfti þá að fara snemma útaf vegna tognunar aftan í læri. Abou Diaby er síðan að berjast við kálfameiðsli sem hafa strítt honum undanfarinn mánuð.

„Diaby, Nasri og Fabregas verða ekki með í leiknum á móti Stoke en bæði Nasri og Fabregas eiga smá möguleika á því að ná Aston Villa leiknum. Johan Djourou fór hinsvegar í rannsókn í gær og niðurstöðurnar voru jákvæðar," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal í viðtali á Arsenal-sjónvarpsstöðinni.

„Við erum ekki alveg vissir með aftan í læris tognunina hjá Clichy en bæði hann og Djourou gætu náð þessum leik. Thomas Vermaelen er líka klár í slaginn og gæti verið með í hópnum. Aaron Ramsey fær líklega annað tækifæri og ég get jafnvel sagt það að hann muni spila," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×