Enski boltinn

Ancelotti valinn besti stjórinn annan mánuðinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea og Peter Odemwingie, framherji West Bromwich Albion, voru bestir í aprílmánuði að mati valnefndar ensku úrvalsdeildarinnar. Ancelotti var kosinn besti stjórinn annan mánuðinn í röð og Odemwingie var kosinn besti leikmaðurinn en hann fékk samskonar verðlaun fyrir septembermánuð.

Ancelotti stýrði Chelsea-liðinu inn í toppbaráttuna í apríl en liðið náði í sextán af átján mögulegum stigum í mánuðinum og minnkaði forskot United á toppnum niður í þrjú stig.

Einu stigin sem töpuðust hjá Chelsea var í fyrsta leik aprílmánaðar á útivelli á móti Stoke en Chelsea vann hinsvegar hina leiki sína á móti Wigan, West Brom, Birmingham, West Ham og Tottenham og markatalan í apríl var 13-4.

Peter Odemwingie hefur spilað frábærlega fyrir Roy Hodgson og á mikinn þátt í góðu gengi West Bromwich Albion upp á síðkastið. Hann fiskaði tvær vítaspyrnur í 2-1 sigri á Liverpool í upphafi mánaðarins og átti síðan þátt í öllum mörkum WBA í 3-2 sigri á Sunderland, skoraði eitt og lagði upp tvö.

Odemwingie skoraði líka í leikjunum á móti Chelsea og Tottenham og gerði síðan mikilvægt jöfnunarmark í 2-1 sigri á nágrönnunum í Aston Villa í síðasta leik mánaðarins.

Odemwingie átti alls beinan þátt í 8 af 10 mörkum West Bromwich Albion í apríl en aðeins Chelsea náði í fleiri stig í apríl en WBA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×