Enski boltinn

Enn eitt jafntefli hjá Tottenham-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jermain Defoe tryggði Tottenham jafntefli.
Jermain Defoe tryggði Tottenham jafntefli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Blackpool var ekki nema tvo klukkutíma í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni því að liðið gerði 1-1 jafntefli við Tottenham á White Hart Lane í kvöld. Wigan hafði haft sætaskipti við Blackpool eftir jafntefli við Aston Villa fyrr í dag en eftir þetta stig á móti Spurs er Blackpool aftur komið upp í síðasta örugga sætið í deildinni þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Tottenham gerði þarna sjötta jafntefli sitt í síðustu átta leikjum og hafa lærisveinarnir hans Harry Redknapp nú aðeins náð að vinna einn leik af síðustu níu í ensku úrvalsdeildinni. Stigið dugði þó til að taka fimmta sætið af Liverpool.

Charlie Adam kom Blackpool í 1-0 með marki úr víti á 76. mínútu en Jermain Defoe jafnaði metin á 88. mínútu.

Það var ótrúleg atburðarrás í kringum mark Blackpool sem kom úr vítaspyrnu á 76. mínútu. Charlie Adam var þá að taka sitt annað víti á rúmri einni mínútu því Heurelho Gomes hafði varið frá honum fyrra vítið. Adam skoraði af miklu öryggi úr seinna vítinu þrátt fyrir að félagi hans, DJ Campbell, hafi reynt að taka af honum boltann.

Michael Dawson fékk á sig fyrra vítið þegar hann handlék boltann en Heurelho Gomes varði vítið í horn. Eftir hornið tókst Gomes hinsvegar að fella Gary Taylor-Fletcher og fá á sig annað víti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×