Enski boltinn

Stoke vann seinheppið Arsenal-lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jermaine Pennant skorar markið sitt í dag.
Jermaine Pennant skorar markið sitt í dag. Mynd/AP
Stoke hélt áfram frábæru gengi á heimavelli sínum á árinu 2011 þegar liðið vann 3-1 sigur á seinheppnu Arsenal-liði í ensku úrvalsdeildinni í dag. Tvö marka Stoke-liðsins komu í fyrri hálfleik þar sem varnarleikur lærisveina Arsene Wenger var ekki til að hrópa húrra fyrir og þriðja mark Stoke kom í næstu sókn eftir að Arsenal hafði minnkað muninn.

Stoke-liðið komst upp í áttunda sætið í deildinni með þessum sigri en liðið hefur náði í 20 af 24 mögulegum stigum í átta heimaleikjum sínum á árinu 2011.

Arsenal náði ekki að fylgja eftir sigri á Manchester United um síðustu helgi en það er eini sigur liðsins í síðustu fimm leikjum þess í deildinni.

Kenwyne Jones kom Stoke í 1-0 á 28. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Jermaine Pennant. Pennant skoraði síðan sjálfur annað markið á 40. mínútu með skoti af 20 metra færi eftir að hann vann boltann sjálfur á miðjunni.

Arsenal-menn fengu fjölda færa en fóru illa með þau öll eða þar til að Robin van Persie minnkaði muninn í 2-1 á 81. mínútu. Jonathan Walters svaraði hinsvegar með þriðja marki Stoke í næstu sókn og eftir það var sigur Stoke ekki í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×