Enski boltinn

Ferguson ætlar að halda áfram þó að United vinni tvennuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sem verður sjötugur í lok ársins er ekkert farinn að hugsa um það að hætta með liðið þótt að United vinni bæði ensku úrvalsdeildina og meistaradeildina í vor.

United getur unnið sinn 19. meistaratitil frá upphafi og bætt met Liverpool og vinni liðið meistaradeildina verður það í þriðja sinn sem Sir Alex fagnar sigri í þeirri keppni. Með því að vinna þrjá Evrópumeistaratitla myndi hann jafna met Bob Paisley hjá Liverpool.

„Ég verð hér áfram á næsta ári," sagði Ferguson þegar blaðamenn voru að forvitnast um framtíð hans hjá félaginu.

„Það mun augljóslega koma að því að ég verð að hætta en ég veit ekkert hvenær það verður. Ég reyndi einu sinni að hætta og það fór ekki vel," sagði Ferguson. United fær Chelsea í heimsókn í dag og fer langt með að tryggja sér tólfta meistaratitilinn undir hans stjórn vinni liði leikinn.

„Mér leið skelfilega eftir að ég ákvað að hætta á sínum tíma en konan mín sannfærði mig um að hætta við að hætta. Ég held að hún væri fljótt leið á því að hafa mig svona mikið heima," sagði Ferguson í léttum tón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×