Enski boltinn

Giggs: Chicharito á skilið það lof sem hann fær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ryan Giggs, hinn þaulreyndi leikmaður Manchester United, hrósaði Javier Hernandez í hástert eftir leikinn gegn Chelsea í gær.

Hernandez, eða Chicharito eins og hann er kallaður, skoraði eftir aðeins 35 sekúndur í leiknum í gær og kom sínum mönnum þar með á bragðið.

Eftir sigurinn þarf United aðeins eitt stig til viðbótar til að tryggja sér endanlega sinn 19. Englandsmeistaratitil.

„Það er ótrúlegt að hann sé búinn að skora 20 mörk á sínu fyrsta tímabili. Maður á alltaf möguleika þegar markaskorari á borð við Javier er í þínu liði,“ sagði Giggs við enska fjölmiðla.

„Hann hefur haft mikil og góð áhrif á liðið, bæði innan vallar sem utan. Hann talar lýtalausa ensku, sem hefur hjálpað til, og markafjöldinn segir allt sem segja þarf.“

„Hann á skilið allt það góða sem hefur verið sagt um hann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×