Erlent

Lenín vakir enn yfir Barentsburg á Svalbarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einn leyndardómsfyllsti bær á dögum kalda stríðsins var Barentsburg á Svalbarða en þar réðu Sovétmenn ríkjum. Vegna Svalbarðasáttmálans er staða eyjaklasans mjög sérstök að þjóðarétti og hafa ýmsar þjóðir nýtt sér það með eigin bækistöðvum. Byggðin er einkum á fjórum stöðum, Longyearbyen, Nýja-Álasundi, Sveagruva og Barentsburg en þann stað ætlum við að skoða nánar.

Risastórar glæsimyndir á húsveggjum af vinnandi alþýðuhetjum minna þar á forna tíma. Þarna vakir Lenín yfir bænum, en kannski er það táknrænt að húsið fyrir aftan er orðið rammskakkt. Kolakraninn við höfnina minnir á athafnir en bæinn byggðu Sovétmenn í kringum kolanámur.

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er enginn draugabær. Hann er raunar sprelllifandi, trukkar eru á fleygiferð því kolavinnslan er enn í fullum gangi. Þarna búa nú um fjögurhundruð manns, einkum Rússar og Úkraínumenn. Þeir hafa sjúkrahús og íþróttahús, verslun, veitingahús og hótel en líka barna- og unglingaskóla því í bænum eru um fjörutíu börn.

Sovétmenn byggðu bæinn í kringum kolanámur og vakir Lenín þar enn yfir
Á árum kalda stríðsins voru hér mest um eitt þúsund Rússar og Norðmenn telja nokkuð víst að þeir hafi nú ekki allir verið að vinna kol. Sovétmenn voru einnig á fleiri stöðum á eyjaklasanum. Svalbarði var nefnilega einn af heitu stöðunum í togstreitu NATO-ríkja og Sovétblokkarinnar. Gagnkvæm tortryggni ríkti um öll umsvif en samkvæmt Svalbarðasáttmálanum er hverskyns hernaðarbrölt þar bannað. Ræðismannsskrifstofa Sovétmanna í Barentsburg þótti hins vegar grunsamlega stór og þyrluflugvöllur á Herodda þótti búinn óvenju flóknum tækjum, ratsjám og loftnetum.

En nú virðast allir vera orðnir vinir. Vestrænir ferðamenn flykkjast nú hingað á vélsleðum til að upplifa gamla sovéttímann og Rússarnir reyna að græða á öllu saman með því að selja þeim veitingar, gistingu, minjagripi og leiðsögn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.