Enski boltinn

Suárez skoraði í sigri Liverpool

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Liverpool vann góðan útisigur gegn Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag, 0-2. Dirk Kyut og Luis Suárez skoruðu mörk Liverpool.

Liverpool fékk vítaspyrnu á silfurfati á 33. mínútu þegar Jay Spearing var felldur við vítateiginn af John Mensah, varnarmanni Sunderland. Í endursýningu sást greinilega að brotið átti sér stað fyrir utan vítateig en aðstoðardómari gaf merki þess að brotið hefði verið á Spearing innan vítateigs. Hollendingurinn Dirk Kyut skoraði úr vítinu og kom gestunum yfir.

Andy Carroll var ekki langt frá því að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool snemma í seinni hálfleik en varnarmenn Sunderland vörðu skalla hans á línu.

Úrúgvæinn Luis Suárez gulltryggði Liverpool öll þrjú stigin með frábæru marki á 77. mínútu með frábæru marki. Hann þræddi sig í gegnum vörn Sunderland og afgreiddi boltann glæsilega í fjærhornið úr þröngu færi en Simon Mignolet hefði átt að gera betur í markinu.

John Mensah fékk að líta rauða spjaldið þegar skammt var eftir af leiknum fyrir að fella Suárez við vítateiginn og fékk þar með að líta sitt annað gula spjald í leiknum.

Með sigrinum er Liverpool komið með 45. stig í 6. sæti ensku deildarinnar og er aðeins sex stigum á eftir Chelsea sem situr í 4. sæti og Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×