Philipp Lahm, leikmaður Bayern München, segir að það hafi verið rétt ákvörðun hjá forráðamönnum liðsins að slíta samstarfinu við Louis van Gaal knattspyrnustjóra.
Van Gaal mun hætta í lok leiktíðarinnar en Bayern er í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu og þýsku bikarkeppninni.
Félagið hefur ráðið Jupp Heynckes til að taka við liðinu en hann er nú stjóri Leverkusen sem er í öðru sæti deildarinnar.
„Það er rétt ákvörðun að skipta um stjóra en við höfum allir gert mistök - líka ég,“ sagði Lahm í samtali við þýska fjölmiðla.
„Við höfum ekki verið nógu traustir í vörninni og ekki nógu afkastamiklir fyrir framan mark andstæðingsins. En svona er lífið hjá Bayern - ef maður nær ekki árangri verður maður að taka afleiðingum þess.“
„Mér líst vel á Heynckes. Hann þekkir vel til hjá Bayern og þekkir forráðamenn liðsins vel. Þetta mun ganga vel hjá honum,“ sagði Lahm.
