Enski boltinn

Ferguson rýfur þögnina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur loksins látið hafa eitthvað eftir sér um leikinn gegn Liverpool um helgina.

Hvorki Ferguson né leikmenn United fóru í viðtöl við fjölmiðla eftir leikinn. Ferguson var nýlega kærður fyrir ummæli sem hann lét falla eftir leik United gegn Chelsea í síðustu viku og gæti það tengst því að hann hafi sett allt liðið í fjölmiðlabann um helgina.

En hann segir nú að frammistaða sinna manna í leiknum gegn Liverpool hafi verið hörmuleg.

„Það eru engar afsakanir sem ég hef fyrir þessu tapi,“ sagði Ferguson við enska fjölmiðla. „Þetta voru mér mikil vonbrigði því liðið spilaði ekki af þeirri getu sem til er ætlast og við oftast gerum.“

Arsenal er nú þremur stigum á eftir United en á þar að auki leik til góða. Ferguson segir að hann sé svo sannarlega meðvitaður um það.

„Á síðasta tímabili fór Arsenal að gefa eftir í febrúar og mars sem gerði það að verkum að við vorum einir í titilbaráttunni með Chelsea,“ sagði Ferguson. „Ég held að sérfræðingarnir hafi átt von á einhverju svipuðu í ár auk þess sem að City og Tottenham myndu blanda sér meira í baráttuna.“

„En Arsene Wenger og leikmenn hans hafa gert lítið úr þeim spádómum og eru nú í góðri stöðu í öðru sæti deildarinnar. Okkur stafar helst hætta af Arsenal og þetta minnir á þegar við börðumst um titlana af mikilli hörku fyrir nokkrum árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×