Enski boltinn

Fabregas spilaði meiddur gegn Barcelona - ekki með um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, hefur greint frá því að hann meiddist snemma í leiknum gegn Barcelona fyrr í vikunni og spilaði þjáður eftir það.

Barcelona vann leikinn, 3-1, og gerði Fabregas slæm mistök í aðdraganda fyrsta marks Börsunga. Þá reyndi hann hælsendingu rétt utan vítateigs Arsenal en hún mistókst og Lionel Messi náði að koma sínum mönnum yfir.

Fabregas var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla aftan í læri og þessi sömu meiðsli tóku sig upp eftir aðeins fimmtán mínútur.

Stjóri Arsenal, greindi svo frá því í dag að Fabregas myndi ekki spila með í leiknum gegn Manchester United í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar um helgina.

„Það er synd vegna þess að mér leið virkilega vel í upphafi leiksins," sagði Fabregas í samtali við spænska fjölmiðla.

„En ég fann fyrir sársauka eftir fimmtán mínútur og vissi þá að þetta væri búið. Löngunin til að spila var þó yfirsterkari þar til að ég neyddist á endanum til að fara út af," bætti hann við en honum var skipt af velli á 78. mínútu.

„Fabregas mun kannski missa af næstu tveimur leikjum,“ sagði Wenger um meiðsli Fabregas.

Markvörðurinn Wojciech Szczesny meiddist einnig í leiknum gegn Barcelona og bætti Wenger við að það væri eitthvað lengra í hann.

„Hann verður frá í einhvern tíma,“ sagði Wenger.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Robin van Persie getur spilað með Arsenal um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×