Enski boltinn

UEFA dæmdi Wenger og Nasri báða í leikbann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Massimo Busacca og Arsene Wenger.
Massimo Busacca og Arsene Wenger. Mynd/AFP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal og franski miðjumaðurinn Samir Nasri voru báðir dæmdir í eins leiks bann af aganefnd UEFA í dag. Þeir fara í bann fyrir framkomu sína gagnvart svissneska dómaranum Massimo Busacca eftir tap liðsins í seinni leiknum á móti Barcelona í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Arsenal-mennirnir áttu að hafa veist að Massimo Busacca eftir leikinn og hann kærði þá báða fyrir óásættanlega framkomu gagnvart sér. Wenger og leikmenn hans voru mjög ósáttir við rauða spjaldið sem Busacca gaf Robin Van Persie í leiknum.

Wenger fékk auk þess peningasekt upp á 10 þúsund evrur sem gera um 1,6 milljón íslenskra króna. Hann má ekki fara inn í búningsklefann í umræddum leik, hvorki fyrir né eftir leik. Wenger má heldur ekki reyna að koma skilboðum til liðsins úr stúkunni.

Arsene Wenger hélt fram sakleysi sínu í málinu og líkti forráðamönnum UEFA við einræðisherra þegar hann frétti af kærunni á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×