Enski boltinn

Ferguson: Ferdinand ekki með gegn Liverpool - fokreiður út í dómarann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferugson, stjóri Manchester United.
Alex Ferugson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferugson, stjóri Manchester United, hefur staðfest að Rio Ferdinand verði ekki með gegn Liverpool um helgina. United verður einnig án Nemanja Vidic í leiknum en hann fékk að líta rauða spjaldið í leiknum í kvöld.

Þeir Chris Smalling og Wes Brown munu því spila í vörn United um helgina en Ferguson var ekki ánægður með dómara leiksins, Martin Atkinson, í kvöld.

Frank Lampard tryggði Chelsea 2-1 sigur á United í kvöld með marki úr vítaspyrnu þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

„Þetta er þriðja árið í röð sem að dómarinn breytir leik þessara liða hér á Stamford Bridge," sagði Ferguson við enska fjölmiðla eftir leikinn. „Vítaspyrnudómurinn var afar tæpur. En við spiluðum samt mjög vel og þetta var frammistaða sem verðskuldaði ekki tap."

Ferguson vildi einnig meina að David Luiz, sem skoraði fyrra mark Chelsea í kvöld, hefði átt að fá rautt fyrir brot á Wayne Rooney. „Það sáu allir þegar hann braut á Rooney og hann var meira að segja nýbúinn að vaða í Chicharito. Það var ekkert gert þó svo að dómarinn hafi staðið fyrir framan hann."

„Það eru þessar ákvarðanir sem breyta leiknum. Og hann mun halda áfram að dæma í hverri viku."

„En ég er stoltur af leikmönnunum. Þeir hafa gert sitt besta þrátt fyrir dómgæsluna og sköpuðu sér góð færi í kvöld."

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, viðurkenndi að Luiz var heppinn. „Það var mikið um að vera og dómarinn ákvað því greinilega að hann hafi ekki séð þetta," sagði Ancelotti. „Þetta var ekki auðveldur leikur fyrir dómarann."


Tengdar fréttir

Meistararnir lögðu toppliðið

Chelsea og Manchester United, meistarar síðustu sex ára í ensku úrvalsdeildinni, áttust við í stórskemmtilegum leik á Stamford Bridge í kvöld. Chelsea hafði þar sigur, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×