Enski boltinn

Meistararnir lögðu toppliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea og Manchester United, meistarar síðustu sex ára í ensku úrvalsdeildinni, áttust við í stórskemmtilegum leik á Stamford Bridge í kvöld. Chelsea hafði þar sigur, 2-1.

Erkifjendur Chelsea, Arsenal, eru grönnum sínum í Lundúnum sjálfsagt afar þakkláttir en úrslitin þýða að með sigri í næsta leik getur Arsenal minnkað forystu United á toppnum í eitt stig. Chelsea komst með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar.

Wayne Rooney kom United yfir með glæsilegu skoti á 29. mínútu leiksins en David Luiz, varnarmaðurinn öflugi sem kom til Chelsea í lok janúar, jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.

Frank Lampard skoraði svo sigurmark Chelsea úr vítaspyrnu, rúmum tíu mínútum fyrir leikslok, eftir að Chris Smalling braut á Yuri Zhirkov.

Leikurinn var opinn, skemmtilegur og hafði allt sem þarf að prýða góðan knattspyrnuleik.

Fernando Torres og Nemanja Vidic eigast við í leiknum.Nordic Photos / Getty Images
Chelsea byrjaði mjög vel í leiknum og þeir Florent Malouda og Michael Essien komu sér báðir í ágæt skotfæri á fyrstu tíu mínútum leiksins.

Rooney sýndi svo snilldartakta þegar hann skoraði með föstu skoti rétt utan vítateigs neðst í nærhornið. Þar sváfu leikmenn Chelsea á verðinum og gáfu Rooney bæði pláss og tíma til að skora sitt þriðja mark í jafn mörgum deildarleikjum.

Branislav Ivanovic komst svo nálægt því að jafna fyrir Chelsea skömmu fyrir hálfleik en Edwin van der Sar sá við honum á glæsilegan máta.

Síðari hálfleikur var ekki síður fjörlegur en nú voru það heimamennirnir bláklæddu sem reyndust sterkari.

Það byrjaði með því að Luiz skoraði flott mark en þessi brasilíski varnarmaður hefur átt góða innkomu í enska boltann og kórónaði góða frammistöðu í gær með marki. Essien gaf sendingu inn á teig sem Ivanovic framlengdi á Luiz sem skoraði þrátt fyrir að hafa verið með Patrice Evra í sér.

Rooney var svo nálægt því að koma United yfir í tvígang með stuttu millibili. Fyrst skoraði hann mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu og svo tók hann góðan sprett inn í teiginn en skot hans hæfði ekki markið.

Á 78. mínútu náði varamaðurinn Yuri Zhirkov svo að fiska víti eftir að Chris Smalling braut ansi klaufalega á honum. Frank Lampard skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði sínum mönnum þar með sigurinn.

Heimamenn voru líklegri ef eitthvað við til að bæta við marki á lokamínútum leiksins fremur en að United að jafna. Nemanja Vidic fékk að líta rauða spjaldið í uppbótartíma er hann fékk sína aðra áminningu fyrir brot á Ramires.

Þetta var aðeins annað tap United í deildinni í vetur en liðið er engu að síður enn á toppi deiladrinnar með 60 stig og fjögurra stiga forystu á næsta lið, Arsenal, sem á nú leik til góða.

Chelsea kom sér upp í 48 stig með sigrinum og upp í hið eftirsótta fjórða sæti deildarinnar sem er það síðasta sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Liðið á kannski lítinn möguleika á að verja titilinn þrátt fyrir þennan sigur en á nú góðan möguleika á að tryggja sér í það minnsta þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Hér fyrir neðan má sjá lýsingu Boltavaktarinnar. Þetta er ný þjónusta á Vísi og enn í þróun. Við biðjumst velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×