Enski boltinn

Auðvelt hjá City og Arsenal í bikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bendtner fagnar einu marka sinna í kvöld.
Bendtner fagnar einu marka sinna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Nicklas Bendtner skoraði þrennu þegar að Arsenal tryggði sér ásamt Manchester City sæti í fjórðungsúrslitum ensku bikarkeppninnar í kvöld.

16-liða úrslitin kláruðust í kvöld en Arsenal vann 5-0 sigur á Leyton Orient í síðari viðureign liðanna en þeirri fyrri lauk með óvæntu jafntefli. Þá vann City sömuleiðis öruggan sigur á Aston Villa, 3-0.

Bendtner hefur nú skorað fleiri mörk í bikarnum en ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur aðeins skorað tvö í tíu leikjum í vetur.

Marouane Chamakh kom Arsenal yfir á sjöundu mínutu en Bendtner skoraði svo tvívegis áður en flautað var til hálfleiks. Þriðja markið sitt og skoraði hann svo úr vítaspyrnu á 62. mínútu en Gael Clichy innsiglaði öruggan sigur Arsenal með marki stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Yaya Toure kom City yfir gegn Aston Villa strax á fimmtu mínútu og Mario Balotelli skoraði svo 20 mínútum síðar er hann kom City í 2-0 með þrumufleyg. David Silva skoraði þriðja mark City á 71. mínútu og þar við sat.

Nú liggur ljóst fyrir hvaða lið munu eigast við í fjórðungsúrslitum keppninnar helgina 12.-13. mars.

12. mars:

Birmingham City - Bolton

Manchester United - Arsenal

13. mars:

Stoke City - West Ham

Manchester City - Reading




Fleiri fréttir

Sjá meira


×