Fótbolti

Robinho og Ronaldinho ekki í brasilíska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Robinho hefur misst sæti sitt í brasilíska landsliðinu en landsliðsþjálfarinn Mano Menezes valdi í dag hópinn sem mætir Skotlandi í vináttulandsleik síðar í mánuðinum.

En þeir Lucio, Maicon og Elano voru allir valdir í liðið í dag en þeir hafa ekki verið í liðinu síðan á HM í sumar.

Það er hins vegar ekki pláss fyrir Ronaldinho sem gekk nýverið til liðs við Flamengo í heimalandinu. Brasilískir fjölmiðlar voru þó búnir að spá því að Ronaldinho fengi tækifæri með liðinu nú.

Brasilía er nú að undirbúa sig fyrir Copa America í sumar en hefur tapað síðustu tveimur æfingaleikjum sínum, gegn Frakklandi og Argentínu.

Leikmenn Brasilíu þóttu agalausir í leiknum gegn Frakklandi í síðasta mánuði og togaði Robinho til að mynda í treyju dómarans í þeim leik. Hernandes, leikmaður Lazio, fékk að líta rauða spjaldið og er líka búinn að missa sæti sitt í landsliðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×