Enski boltinn

Birmingham tapaði 1-3 fyrir WBA á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Odemwingie og Youssuf Mulumbu fagna fyrsta marki leiksins.
Peter Odemwingie og Youssuf Mulumbu fagna fyrsta marki leiksins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nýkrýndir deildarbikarmeistarar Birmingham voru skotnir niður á jörðina þegar þeir töpuðu 1-3 á heimavelli á móti West Bromwich Albion í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fyrsti leikur Birmingham eftir sigurinn á Arsenal á Wembley í úrslitaleik enska deildarbikarsins á sunnudaginn og tapið getur verið þeim dýrkeypt í harðri fallbaráttu deildarinnar.

West Bromwich vann þarna sinn fyrsta útisigur síðan í lok nóvember og lærisveinar Roy Hodgson komust tveimur stigum upp fyrir Birmingham í töflunni með þessum mikilvæga sigri. Hodgson var örugglega óhemju kátur enda allt annað en daglegt brauð að hans lið vinni á útivelli.

Fyrri hálfleikurinn var steindauður en hlutirnir fóru að gerast í upphafi seinni hálfleiksins þegar bæði lið skoruðu með 79 sekúndna millibili.

Peter Odemwingie kom inn á sem varamaður hjá West Brom í hálfleik og hann var búinn að leggja upp mark fyrir Youssuf Mulumbu eftir rúma mínútu.

Það tók hinsvegar Birmingham skamma stund að jafna því Sílemaðurinn Jean Beausejour jafnaði í næstu sókn eftir sendingu frá Lee Bowyer.

James Morrison kom West Brom aftur yfir á 58. mínútu með stórglæsilegu marki eftir að látið vaða af vítateigslínunni. David Bentley var síðan nærri því búinn að jafna leikinn í næstu sókn en Scott Carson varði vel frá honum.

Odemwingie fékk síðan ótrúlegt dauðafæri á 68. mínútu til að innsiglað sigurinn þegar hann skaut yfir fyrir fram opið mark eftir að Chris Brunt átti skot í innanverða stöngina.

Það kom þó ekki að sök því Paul Scharner skoraði þriðja markið fjórum mínútum síðar þegar hann skallaði inn fyrirgjöf James Morison eftir stutta hornspyrnu og sofandahátt í vörn Birmingham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×