Fótbolti

Ísland í 115. sæti á heimslista FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland féll um eitt sæti þegar nýr styrkleikalisti FIFA var gefinn út í dag. Liðið er nú í 115. sæti og nálgast óðum sinn versta árangur frá upphafi.

Ísland hefur neðst verið í 117. sæti listans en það gerðist í ágúst árið 2007. Fyrir aðeins sjö mánuðum síðan, í ágúst 2010, var liðið í 79. sæti en hefur fallið hratt niður listann síðan þá eins og sést á meðfylgjandi grafi.

Ísland er enn í 45. sæti á meðal Evrópuþjóða en sem fyrr eru nágrannar Íslands á listanum þjóðir sem eru ekki þekkt fyrir afrek sín í knattspyrnuheiminum.

Suður-Ameríkuríkið Súrínam hoppaði upp fyrir Ísland í þetta skiptið og er nú í 114. sæti. Mið-Afríkulýðveldið er í 112. sæti og Sameinuðu arabísku fyrstadæmin, Óman, Gvæjana, Súdan og Níger í næstu sætum fyrir ofan.

Walex, Lúxemborg, Tæland, St. Kitts og Nevis og Kongó eru svo í næstu sætum á eftir Íslandi.

Norður-Kórea, sem keppti á HM í Suður-Afríku síðastliðið sumar er í 112. sæti og grannar okkar í Færeyjum í 135. sæti.

Næsti leikur Íslands verður gegn Kýpur í undankeppni EM 2012 síðar í þessum mánuði.

Litlar breytingar eru á meðal tíu efstu þjóðanna. Spánn, Holland og Þýskaland eru í efstu þremur sætunum en Argentína er komið upp í fjórða sætið á kostnað Brasilíu sem fellur í það fimmta.

Úrúgvæ, Króatía, Portúgal og Grikkland koma svo næst en Ítalía og Noregur deila ellefta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×