Enski boltinn

Birmingham deildabikarmeistari eftir ótrúleg varnarmistök Arsenal

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Nikola Zigic og Obafemi Martins fagna sigurmarkinu í dag.
Nikola Zigic og Obafemi Martins fagna sigurmarkinu í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Birmingham er deildabikarmeistari eftir að hafa lagt Arsenal af velli, 2-1, í stórkemmtilegum leik. Obafemi Martins skoraði sigurmarkið á 90. mínútu eftir ótrúleg varnarmistök Arsenal.

Arsenal slapp með skrekkinn strax á annarri mínútu þegar Lee Bowyer slapp í gegnum vörnina en var felldur af Wojciech Szczesny. Bowyer var ranglega dæmdur rangstæður en Birmingham hefði átt að fá vítaspyrnu og Szczesny hefði líklega fengið rauða spjaldið.

Birmingham náði verðskuldað forystunni í leiknum á 28. mínútu þegar Nikola Zigic skoraði með skalla en vörn Arsenal var úti á þekju.

Robin van Persie jafnaði leikinn á 39. mínútu með frábæru marki eftir sendingu frá Andrej Arsjavin. Ben Foster hélt Birmingham á floti í leiknum og varði hvað eftir annað frá sóknarmönnum Arsenal.

Markvörðurinn Szczesny mun líklega ekki sofa mikið í nótt því hann gerði sig sekan um hrikaleg mistök á 90. mínútu leiksins þegar hann missti frá sér boltann og Obafemi Martins þurfti ekki annað en að pota boltanum í netið. Martins tryggði Birmingham þar með titilinn og er þetta fyrsti titill liðsins í 48 ár.

Leikurinn var stórskemmtilegur og var sóknarleikurinn í forgrunni. Arsenal-menn áttu erfitt með sig eftir leikinn enda hefur liðið ekki unnið titil í sex ár og þurfa að bíða lengur.

Arsenal 1-2 Birmingham

1-0 Nikola Zigic ('28)

1-1 Robin van Persie ('39)

1-2 Obafemi Martins ('90)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×