Enski boltinn

Lampard: Væri hræðilegt að komast ekki í Meistaradeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Frank Lampard, leikmaður Chelsea, vill ekki hugsa til þess að liðið verði ekki eitt af fjórum efsti liðum ensku úrvalsdeildarinnar í vor og komist þar með ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Chelsea er nú í fimmta sæti deildarinnar eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við Fulham í upphafi vikunnar.

Liðið er nú tólf stigum á eftir toppliði United og líkurnar á að Lampard og félagar nái að verja titilinn sinn virðast hverfandi. Aðaláherslan er því að tryggja þátttökuréttinn í Meistaradeildinni.

„Við verðum að vera í einu af fjórum efstu sætunum og við megum aldrei missa sjónar af því markmiði," sagði Lampard. „Það væri hræðilegt ef það myndi ekki takast."

Chelsea mætir Everton í ensku bikarkeppninni um helgina og svo FC Kaupmannahöfn í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í næstu viku.

Lampard segir að báðar keppnir séu liðinu mikilvægar.

„Deildin er erfið og því er það enn mikilvægara að komast í eins marga úrslitaleiki og mögulegt er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×