Enski boltinn

Woodgate ekki af baki dottinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jonathan Woodgate í leik með Tottenham.
Jonathan Woodgate í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Jonathan Woodgate hefur átt við þrálát meiðsli að stríða á síðustu árum en segist þrátt fyrir allt ekki vera búinn að gefast upp.

Woodgate lék sinn fyrsta leik í sextán mánuði er hann kom inn á sem varamaður í 1-0 sigri Tottenham á AC Milan í Meistaradeild Evrópu fyrr í vikunni.

Hann lék í 31 mínútu í leiknum og verður nú frá næstu tvær vikurnar þar sem hann tognaði á vöðva í fæti í leiknum.

Þrátt fyrir það er hann harðákveðinn í að vinna sér aftur fast sæti í byrjunarliði Tottenham þegar hann nær heilsu á ný.

„Meiðsli eru hluti af fótboltanum en maður gefst aldrei upp," sagði Woodgate við enska fjölmiðla. „Þeir voru margir sem sögðu að ég myndi aldrei koma til baka en það hvatti mig bara áfram í baráttunni."

„Maður verður bara að halda áfram og reyna að afsanna þá sem hafa ekki trú á manni. Ég hef aldrei gefist upp og það mun ég aldrei gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×