Enski boltinn

Eiður: Á ekki von á að Ísland verði heimsmeistari fljótlega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen verður líklega í byrjunarliði Fulham sem mætir hans gamla félagi, Bolton í ensku bikarkeppninni á morgun.

Eiður Smári er nú í láni hjá Fulham frá Stoke City en þar fékk hann lítið sem ekkert að spila í haust. Eiður kom við sögu í rúmar tíu mínútur er Fulham gerði markalaust jafntefli við Chelsea í upphafi vikunnar og stóð sig vel.

Hann segist vera ánægður hjá Fulham og þá sérstaklega æfingar Mark Hughes knattspyrnustjóra. Hughes átti glæsilegan feril sem leikmaður og lék til að mynda með Manchester United, Chelsea og Barcelona - en Eiður lék einnig með tveimur síðastnefndu félögunum.

„Ég er viss um að það er ýmislegt sem knattspyrnustjórarnir taka með sér frá leikmannaferlinum þegar þeir gerast þjálfarar. Æfingarnar hjá Fulham endurspegla það,“ sagði Eiður Smári í samtali við enska fjölmiðla.

„Æfingarnar eru svipaðar eins og hjá Barcelona en hjá Fulham spilum við góðan fótbolta. Við gefum boltann mikið og reynum að nýta styrkleika okkar, sem er að halda boltanum við jörðina.“

„Ég hef notið tímans hér til hins ítrasta. Hraðinn hefur verið góður og ég er mjög ánægður með aðstöðuna.“

„Enska bikarkeppnin er eini titillinn sem ég hef ekki unnið - fyrir utan heimsmeistaratitilinn en ég á ekki von á því að Ísland verði heimsmeistari á næstu árum.“

„Ég spilaði í úrslitaleiknum árið 2002 með Chelsea en þá töpuðum við fyrir Arsenal.“

„Ég man hvað vikan fyrir leik var spennandi. Þetta er sú bikarkeppni í heiminum sem nýtur mestrar sérstöðu vegna langrar sögu hennar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×